Auðvelt
Hafið þið prófað að setja skeið af hnetusmjöri út á grautinn? Hvílíkur lúxus! Grauturinn verður saðsamari fyrir vikið og orkan endist aðeins lengur. Út á grautinn er gott að setja ávexti, t.d. epli, peru, banana eða ber.
Þessi uppskrift miðast við einn, en mjög auðvelt er að stækka hana að vild.
1 dl lífrænt haframjöl
2½ dl vatn
¼ tsk kanill
salt af hnífsoddi
2 tsk himneskt hnetusmjör, gróft
1-2 tsk rúsínur
uppáhalds ávöxturinn þinn (t.d. epli, pera, ber eða banani)
mjólk að eigin vali
Setjið vatnið í pott og kveikið undir.
Bætið höfrunum út í ásamt kanil og salti.
Látið grautinn malla í 2-5 mín, eða þar til tilbúinn.
Passið að hræra í annað veifið svo grauturinn brenni ekki.
Setjið grautinn í fallega skál, stráið því sem hugurinn girnist yfir, ásamt vænni skeið af hnetusmjöri.
Hellið smávegis (jurta)mjólk út á og njótið!